top of page
Search
Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

Beisiklí



Nýlega skráði ég um 45 mínútna langt hlaðvarpsviðtal við tvær stúlkur, 19 og 20 ára, sem segja frá tiltekinni atburðarás með því að svara spurningum spyrils. Þá fór ég að velta fyrir mér hlutverki orðsins beisiklí sem heyrist sífellt oftar í íslensku. Merking orðsins basically er nokkuð margslungin en samkvæmt Ensk-íslenskri orðabók þýðir það ‘í grundvallaratriðum, í undirstöðuatriðum’. Það mætti þó einnig þýða sem t.d. ‘raunverulega, í rauninni, í raun og veru, eiginlega, nokkurn veginn’. Þessi orð/orðasambönd koma ekki fyrir í máli viðmælendanna í hlaðvarpsþættinum en beisiklí kemur fjórtán sinnum fyrir.


Orðið beisiklí er framandorð úr ensku og það kemur oftast fyrir í óformlegu talmáli. Samkvæmt leitarniðurstöðum á vefnum Tímarit.is birtist það fyrst á prenti á íslensku í stjörnuspá Tímans árið 1995, en í heildina skilar leitin 28 dæmum sem flest eru beinar tilvitnanir í mælt mál. Dæmi um beisiklí (55) /basically (177) má einnig finna í Risamálheildinni, m.a. úr fjölmiðlum og ræðum á Alþingi, og því er ekki ólíklegt að orðið muni einn daginn rata inn í íslenska orðabók.


Samkvæmt rannsóknum Butler (2008) á notkun basically í breskri ensku er merking orðsins eilítið mismunandi eftir því hvort það er notað í ræðu eða riti. Það er mun algengara í talmáli og gegnir þar yfirleitt hlutverki orðræðuagnar þó svo að orðið sé skilgreint sem atviksorð. Orðræðuagnir koma úr ýmsum orðflokkum, beygjast ekki og hafa ekki sjálfstæða orðmerkingu og því verður að túlka þær út frá samhengi orðræðunnar eða samtalsins hverju sinni (sjá t.d. Þóru Björk Hjartardóttur 2020 og Helgu Hilmisdóttur 2001). Butler (2008) greinir ýmiss konar virkni orðsins basically en telur það ekki síst notað þegar mælandi vill draga úr staðhæfingu eða fría sig ábyrgð, ef svo má segja. Þá segir hann algengt að basically komi fyrir ásamt öðrum orðræðuögnum eða segðum sem gjarnar eru notaðar til þess að falast eftir einhvers konar samþykki eða skilningi viðmælenda (t.d. you know, just, I think, I mean). Dæmi um slíkt í íslensku eru þúveist, skiluru, bara og sko. Eftirfarandi dæmi úr fyrrnefndu hlaðvarpsviðtali gefa til kynna að þetta eigi einnig við um notkun beisiklí í íslensku.


A) það eru beisiklí einu skilyrðin sem þeir sögðu að þeir hefðu skiluru

B) María beisiklí bara fór svona (.) hingað

C) ekki smátt og smátt bara beisiklí bara einn skellur bara ((klapp)) hérna og (1.0) Instagrammið springur beisiklí ((enska))

D) þá var ekkert komið út frá okkur o :: g beisiklí bara að við höfum (.) verið að (.) brjóta reglur eins og margir vildu (.) meina skiluru

E) það er bara beisiklí drullað yfir mig bara úti á götu sko

F) bara beisiklí drepið ykkur skiluru


G) þúveist þetta hefði beisiklí ekki gerst ef að við hefðum ekki farið að pósta (.) skiluru mig


H) og þúst hann beisiklí svona sendi mér einhverja emojis eins og hann hefði bara beisiklí ekki tíma í þetta


I) beisiklí name it sko




Heimildir:


Butler, C.S. 2008. The subjectivity of basically in British English: A corpus-based study. Í J. Romero-Trillo (ritstj.): Pragmatics and corpus linguistics: A mutualistic entente, bls. 37–64. Mouton de Gruyter, Berlín.


Helga Hilmisdóttir. 2001. Partiklarna þúveist och skiluru — ett isländskt ungdomssamtal under lupp. Í K. Nordenstam og K. Norén (ritstj.): Språk, kön och kultur: Rapport från fjärde nordiska konferensen om språk och kön, Göteborg den 6–7 oktober 2000, bls. 124–132. Göteborgs Universitet, Gautaborg.


Risamálheildin. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. malheildir.arnastofnun.is.


Tímarit.is. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Tímarit.is.


Þóra Björk Hjartardóttir. 2020. Allur er varinn góður: Orðið hvað sem orðræðuögn. Orð og tunga 22:1–18.

141 views0 comments

Comments


bottom of page