Um miðjan ágúst var haldið málþing í Reykjavík um notkun enskra málbeitingarmerkja í norrænum málum. Málbeitingarmerki er hugtak sem notað er um orð og orðasambönd sem gegna einkum því hlutverki að liðka fyrir samskiptum og sýna afstöðu mælandans. Sem dæmi um slík orð má t.d. nefna ávörp (dude), orðræðuagnir (jess), kurteisisfrasa (sorrí) og blótsyrði (fokk).
Meðal fyrirlesara á málþinginu voru Johannes Widegren og Jukka Tyrkkö frá Linnaeus-háskólanum í Svíþjóð. Fyrirlestur þeirra fjallaði um notkun og tíðni blótsyrða í Twitter-færslum á Norðurlöndum. Rannsóknin byggðist á stóru gagnasafni Twitter-færslna þar sem blótsyrði voru flokkuð t.d. eftir löndum, búsetu höfunda (dreifbýli/þéttbýli) og aðlögun orða að móttökumálinu.
Samkvæmt niðurstöðum Widegrens och Tyrkkös er notkun enskra blótsyrða áberandi mikil hjá íslenskum notendum. Hér verður þó að hafa það í huga, eins og fyrirlesararnir bentu á, að íslensku færslurnar sem rannsóknin byggðist á eru mun færri en færslurnar frá hinum Norðurlöndunum. Mynd 1 sýnir fjölda enskra blótsyrða dreift á milljón lesmálsorð.
Mynd 1: Tíðni enskra blótsyrða á milljón lesmálsorð.
Eins og Mynd 1 sýnir er tíðni enskra blótsyrða áberandi hæst í íslensku gögnunum. Þetta gengur þvert á niðurstöður tíðnirannsókna á dagblaðatextum þar sem hlutfall aðkomuorða úr ensku hefur verið lægst í íslensku en mun meiri í norsku, dönsku og sænsku (Selback og Sandøy 2007).
En hvað segja Widegren og Tyrkkö um gömlu íslensku blótsyrðin? Eru þau mikið notuð á Twitter? Tafla 1 sýnir yfirlit yfir algengustu innlendu blótsyrðin í færslum frá Íslandi og Svíþjóð.
Tafla 1: Tíðni hefðbundinna blótsyrða í íslensku og sænsku á hverja milljón lesmálsorða.
Ljóst er á þessum tölum að hefðbundin sænsk blótsyrði eru mun meira notuð í Svíþjóð en gömlu íslensku blótsyrðin eru á Íslandi. Munurinn er enn meira sláandi ef við höfum í huga tíðni enskra blótsyrða í sama efni (sjá Mynd 1), hér sett fram í tölum, í Töflu 2.
Tafla 2: Tíðni þriggja algengustu blótsyrðanna á hverja milljón lesmálsorða.
Niðurstöðurnar eru í samræmi við það sem ég hef séð í gögnunum sem söfnuðust í verkefninu Íslenskt unglingamál. Þótt íslensk blótsyrði eins og djöfulsins komi fyrir í samtölum eru ensku orðin fokk, fokking og sjitt mun tíðari. Ekki hefur verið gerð rannsókn á notkun blótsyrða í opinberri umræðu á Íslandi en Beers Fägersten (2017) hefur skoðað notkun á fuck í Svíþjóð. Hún bendir m.a. á að notkun enskra blótsyrða tengist húmor sterkum böndum og hefur hún m.a. rannsakað teiknimyndasögur dagblaða í því ljósi. Ekki er ólíklegt að notkun orða eins og fokk og sjitt í íslenska Twitter-heiminum tengist að einhverju leyti húmor en rannsóknir á því verða að bíða betri tíma. Ljóst er að Íslendingar hafa þó minni húmor fyrir gömlum íslenskum blótsyrðum, því eins og margir muna var auglýsing Kjarnafæðis á þorramat snarlega ritskoðuð eftir háværar kvartanir almennings.
Heimildir
Beers Fägersten, Kristy. 2017. English-language swearing as humor in Swedish comic strips. Journal of Pragmatics 121: 175–187.
Selback, Bente og Helge Sandøy. 2007. Fire dagar i nordiske aviser. Ei jamføring av påverknaden i ordforrådet i sju språksamfunn. Oslo: Novus forlag.
Widegren, Johannes og Jukka Tyrkkö. 2022. English swear words on Nordic Twitter: Regional characteristics of lexical repertoires and mixed-language forms. Fyrirlestur á málþingi PLIS í Reykjavík 11.–12. ágúst 2022.
Comments