Notkun blótsyrða virðist nátengd sjálfsmynd unglinga, samstöðu þeirra og tengslum (sjá t.d. Stapleton 2010; Stenström 2014) en samkvæmt breskri rannsókn blóta unglingar mest allra aldurshópa. Þeir sögðust oftast blóta í félagsskap vina sinna, síðan einsamlir, þá við fjölskyldu og vinnufélaga en sjaldnast við ókunnuga (sjá Dewaele 2017). Þetta væri fróðlegt að kanna hér á landi en nú stendur einmitt til að rýna svolítið í niðurstöður rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál með blótsyrði sem viðfang.
Það skyldi engan undra að enska orðið fuck kom mjög oft fyrir í svörum nemenda sem tóku þátt í slangurorðakönnuninni veturinn 2019‒2020 (þeirri sem ég hef fjallað um hér í fyrri færslum). Það virðist algengasta blótsyrðið í svörunum og er það eflaust einnig í daglegum samskiptum unglinga. Þegar ég fór að greina þessi tilfelli voru það einkum þrjú atriði sem vöktu athygli mína. Í fyrsta lagi er orðið mun oftar ritað með aðlöguðum hætti, þ.e. fokk (527 sinnum) heldur en með hefðbundnum, enskum rithætti, þ.e. fuck (217 sinnum). Aðrar ritmyndir komu sjaldnar fyrir, t.d. fock (23) og fukk (3). Í öðru lagi kemur í ljós að aðlagaða ritmyndin virðist oftar notuð í samhengi við innlend orð, en sú hefðbundna birtist frekar í samhengi við önnur ensk orð. Í þriðja lagi er athyglisvert að sjá hve notkunarmöguleikar orðsins eru fjölbreyttir en hér birtist aðeins brot af þeim svörum sem innihalda fokk.
1) Fokkjú
2) fokk hvað þu ert ömurlegur
3) Ég er fokk pirruð
4) Bruh ertu ekki að fokka í mér?
5) Gaur fokkaðu þér
6) Fokkastu i burtu, bææ
7) Fokkaður á því
8) Haltu kjafti fokking mellan þín
9) Nenniru að fokking fara
10) Gaur djöfull ertu fokking UUUGLY
11) F’in afhverju!
12) Wtf
Dæmi (1) inniheldur aðlagaðan rithátt skammaryrðisins fuck you en í dæmi (2) gegnir orðið fokk hlutverki upphrópunar, rétt eins og t.d. vá eða úff, og í dæmi (3) er það e.k. áhersluliður líkt og mega eða ýkt. Í næstu þremur dæmum kemur orðið fyrir í hlutverki sagna og í dæmum (5) og (6) í boðhætti, annars vegar sem afturbeygð sögn og hins vegar sem miðmyndarsögn. Síðan má í dæmi (7) sjá hvernig enska lýsingarorðið fucked hefur verið þýtt sem fokkaður á íslensku en það var gjarnan nefnt sem slanguryrði yfir það að vera undir áhrifum fíkniefna. Í dæmum (8‒11) gegnir orðið fokking áhersluhlutverki og stendur ýmist með nafnorði, sögn, lýsingarorði eða atvikslið. Í dæmi (11) er það stytt með úrfellingarmerki og í dæmi (12) má sjá skammstöfun enska orðasambandsins what the fuck. Fleiri sams konar styttingar má víða sjá í svörum þátttakenda, t.d. stfu (shut the fuck up) og gtfo (get the fuck out).
Í grein sinni frá 2017 fjallar Veturliði Óskarsson um sögu orðsins í íslensku og útskýrir hvernig fuck úr ensku tók við af tökuorðunum fokk og fokka sem fyrir voru í málinu (sennilega komið úr dönsku eða miðlágþýsku). Hér skal einnig bent á BA-ritgerð Einars Lövdahl Gunnlaugssonar frá 2016 sem fjallar um innkomu og notkun orðsins í nútímaíslensku. Ljóst er að merkingarsvið þess er afar vítt og skýringin sem einn þátttakandi slangurorðakönnunarinnar skrifaði, virðist raunar býsna lýsandi: FOKK er notað alla daga alltaf það er hægt að nota það fyrir allt og ekkert.
Heimildir:
Dewaele, Jean-Marc. 2017. Self-reported Frequency of Swearing in English: Do Situational, Psychological and Sociobiographical Variables Have Similar Effects on First and Foreign Language Users? Journal of Multilingual and Multicultural Development 38/4: 330–345.
Einar Lövdahl Gunnlaugsson. 2016. „Hvað í fokkanum geri ég þegar ég útskrifast?“ Ritgerð um blótsyrðið fokk og skyld orð í íslensku nútímamáli. Óútgefin BA-ritgerð. Háskóli Íslands, Reykjavík.
Stapleton, Karyn. 2010. Swearing. Í M. A. Locher and S. L. Graham (ritstj.): Interpersonal Pragmatics (Handbooks of Pragmatics 6), bls. 289–306. Mouton, Berlín.
Stenström, Anna-Brita. 2014. Teenage Talk: From General Characteristics to the Use of Pragmatic Markers in a Contrastive Perspective. Palgrave Macmillan, Basingstoke.
Veturliði Óskarsson. 2017. Two Loanwords Meet: When Fuck Met Fokk in Icelandic. RASK 46: 121–157.
Comments