top of page
Search
Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Þetta var helvíti solid! – um blótsyrði í tölvuleik unglingsstráka

Þann 2. og 3. desember verður haldin norræn blótsyrðaráðstefna í Reykjavík, SwiSca 7, sjá tengil hér. Af því tilefni langaði mig að þessu sinni að gera litla könnun á blótsyrðum í samtölum unglinga. Tilgangurinn var að kanna hvernig orðaforðinn lítur út. Fyrir valinu varð samtal tveggja drengja sem eru að spila tölvuleikinn FIFA. Samtalið er 60 mínútur og telur um 7.180 lesmálsorð.



Bogi og Valdi eru sextán ára gamlir og eru á fyrsta ári í framhaldsskóla. Upptakan fer fram á skólatíma í apríl 2020 á meðan allir framhaldsskólar á landinu voru lokaðir vegna kórónuveirufaraldurs. Þeir eru því formlega séð að sinna fjarnámi þótt athyglin sé fyrst og fremst á tölvuleiknum. Bogi er í þýskutíma og fylgist með kennslunni í farsímanum sínum. Hann á að vera að vinna að verkefni sem hann sinnir af hálfum hug í upphafi samtalsins. Hann gefst þó fljótt upp á því eftir hvatningu frá Valda sem vill einbeita sér að leiknum.


Í samtalinu sem stendur yfir í eina klukkustund heyrast 84 dæmi um blótsyrði. Tafla 1 sýnir yfirlit yfir þessi orð og upplýsingar um fjölda tilvika.




Áberandi á listanum eru orð og frasar sem ég hef flokkað sem fokk-orð. Þar má nefna orð á borð við fokk og fokking auk frasa eins og what the fuck og hvernig í fokkanum. Samtals voru þetta 38 orð sem gera um 45% af öllum blótsyrðunum í samtalinu. Athyglisvert er að annar drengjanna notar bæði enskan og íslenskan framburð orðsins, þ.e. fökk og fokk.


Annað sem er áberandi er hátt hlutfall blótsyrða sem fengin eru að láni úr ensku: fokk, fokking, sjitt, dem, ass, díses og holy shit. Tæplega 77% af blótsyrðunum falla í þennan flokk.


Að lokum voru svo í samtalinu nokkur gömul íslensk blótsyrði með trúarlegar tilvísanir: andskotinn, hvað í andskotanum, helvíti og djöfull. Samtals koma slík orð fyrir 19 sinnum sem gera um 23% af öllum blótsyrðunum í samtalinu.


Til að leyfa ykkur að heyra hvernig blótsyrðin hljóma hef ég svo skeytt saman öllum tilvikunum í eina hljóðskrá sem heyra má í spilaranum hér að neðan.








252 views0 comments

Comments


bottom of page